sunnudagur, 28. janúar 2007

Verkefni 2.

Þegar ég var að vinna að verkefni dagsins þá komst ég að því að sumir draumar voru í raun forsenda annarra, þannig að ég ákvað að flokka saman þá drauma sem voru háðir hver öðrum. Frá og með nú ætla ég að hætta að tala um þessi atriði sem drauma því að draumar eru eitthvað sem er fjarlægt. Þess í stað ætla ég að tala um markmið. Hér kemur upptalning á markmiðunum í forgangsröð.

1. Vera í mjög góðu líkamlegu ástandi
2. Vera hamingjusamur (tengist markmiðinu að njóta líðandi stundar)
3. Veita hamingju (tengist að hluta til markmiðinu um að hjálpa öðrum)
4. Stofna fjölskyldu
5. Ná velgengi í starfi
6. Eiga pening til að gera það sem mig langar til (Tengist markmiðunum um að eiga mótorhjól og vélsleða og einnig markmiðinu um að ferðast).
7. Vera kærulausari en ég er í dag.
8. Læra að spila á hljóðfæri

Það er nú einu sinni þannig að markmið eru ekki góð nema þá að þau séu mælanleg, þannig að verkefni morgundagsins er að gera markmiðin mælanleg.

laugardagur, 27. janúar 2007

Verkefni 1. Útlistun á draumum

Jæja, þá er dagurinn brátt á enda og komið að því að birta niðurstöður verkefnisins. Ég ætla bara að skrifa niðurstöðurnar inn í handahófskendri röð.

Það sem mig dreymir um að gera er:
  • Kunna að spila á hljóðfæri
  • Stofna fjölskyldu
  • Ná velgengni í starfi
  • Eiga vélsleða
  • Eiga mótorhjól
  • Eiga pening til að gera það sem mig langar til
  • Aðstoða aðra
  • Ferðast
  • Vera í mjög góðu líkamlegu ástandi
  • Vera kærulausari en ég er í dag
  • Njóta líðandi stundar
  • Vera hamingjusamur
  • Veita hamingju

Nú þegar ég veit hvað ég vill þá þarf ég að fara að velta því fyrir mér hvernig ég ætla að ná að gera þessa drauma að veruleika. En áður en ég geri það þá þarf ég að forgangsraða þessum draumum, því það er alveg á hreinu að ég get ekki gert þetta allt í einu.

Verkefnið fyrir morgundagin er s.s. forgangsröðun á atriðum draumalistans.

Jæja, ætla að ljúka bloggi dagsins með því að segja: Ef þú dettur sjö sinnum, rístu þá á fætur átta sinnum.

Góðar stundir

föstudagur, 26. janúar 2007

Halló heimur.

Nýtt ár, ný tækifæri, nýjar athafnir. Þar sem að þetta verður vafalaust ár breytinga og framkvæmda hjá mér þá ætla ég að halda utan um árið hér á vefnum. Vefskrifin eiga að veita mér aðhald og um leið verður auðvelt fyrir mig að fletta til baka og skoða hverju ég hef áorkað. Um leið þá vona ég að skrif mín opni augu sem flestra gagnvart því að það er undir okkur sjálfum komið hvernig við kjósum að lifa lífinu. Ég mun leggja eitt verkefni fyrir sjálfan mig á hverjum degi og greina frá afrakstri dagsins hér á blogginu.

Verkefni morgundagsins:
Á unglingsárum höfum við öll átt okkur stóra drauma. Við trúðum því innst inni að við hefðum einhverja sérstaka hæfileika sem gerðu okkur frábrugðin öðrum. Hæfileika til að láta drauma okkar verða að veruleika. Hæfileika til að gera heiminn að betri stað. En einhvers staðar á lífsleiðini hafa sum okkar misst trúna á hæfileikum okkar. Misst trúna á því að við gætum stýrt okkar eigin lífi, misst trúna á því að það sé undir okkur sjálfum komið hvort við verðum, efnuð, hamingjusöm, elskuð, og/eða njótum velgengni. Málið er að hvort sem þú trúir því eða trúir því ekki að þú getir gert eitthvað, þá hefur þú rétt fyrir þér. Það má vel vera að þér takist ekki allt í fyrstu tilraun en þá er bara að læra af því, aðlagast og breyta til og reyna aftur. Verkefni morgundagsins er að kafa ofan í sálartetrið og finna út úr því hvað er það sem ég vill fá út úr lífinu. Annað kvöld verða niðurstöður verkefnisins birtar hér á vefnum.

Góðar stundir lesandi góður og mundu að frjáls hugur er frjálsasta fyrirbærið í heiminum.